Þú fellur fyrir prinsum.





Sé karlkynið flokkað í prinsa, froska, proska og frinsa er ljóst að þú laðast að kóngi dýraríkisins, prinsinum. Þráðbeinar, hvítar tennur hans skína jafnskært og gljáfægð kórónan og fáir geta staðist íþróttamannslegan vöxt hans. En ekki er allt gull sem glóir, oft er flagð undir fögru skinni, dæmdu ekki bókina eftir kápunni (allt er þegar þrennt er).




Prinsinn er vissulega sjarmör. Hann gleymir ekki afmælisdeginum þínum, brúðkaupsdeginum eða jólagjöfinni. Þegar maður er í för með prinsinum þarf ekki að hafa áhyggjur af því að hurð fletji út á manni andlitið eins og þegar farið er út með froski - prinsinn heldur dyrunum opnum eins og sönnum herramanni ber að gera. Auk þess skilur prinsinn aldrei eftir sig skítuga táfýlusokka á stofugólfinu. Þvert á móti. Hann er lipur með kústinn og veigrar sér ekki við heimilisstörfum. Hann á það meira að segja til að hrista fram úr erminni heimatilbúna, þriggja rétta máltíð - án þess að blása úr nös.




En því miður er prinsinn mjög meðvitaður um eigið ágæti. Ekki láta það koma þér á óvart þótt aðgangur þinn að speglinum minnki ákveðir þú að eyða lífinu með prinsi. Prinsinn á það nefnilega til að standa löngum stundum fyrir framan hann, hnykla vöðvana og syngja lagið "I'm too sexy" með Right Said Fred: "I'm too sexy for my shirt, too sexy for my shirt. So sexy it hurts." Hárþurrkuna og hársléttarann þinn munt þú ekki lengur fá að hafa út af fyrir þig og ekki láta þér bregða þegar andlitskremið þitt er skyndilega búið. Prinsinn þarf jú að viðhalda fegurð sinni og æsku. Síðast en ekki síst skaltu búa þig undir að vera ávallt í öðru sæti í lífi prinsins, því skotnastur er hann í sjálfum sér. (Froskurinn hljómar ekki sem svo slæmur kostur núna!)



Fellur þú fyrir prinsum eða froskum?

0 Comments:

Post a Comment



Newer Post Older Post Home